Ljóðbréf er borið í póstkassa kostunarmanna undir fullu tungli í með óreglulegu og ófyrirsjáanlegu millibili. Bréfið inniheldur á þriðja tug nýrra ljóðtexta eftir ýmsa höfunda.
Brot Ljóðbréfsins (95x210 mm, 20 bls.) afmarkast af stærð gluggaumslags (en er þó gluggalaust). Þeir sem skrá sig sem kostunarmenn að útgáfu Ljóðbréfa fá eintak af bréfinu sent í pósti og leggja útgáfunni til 3.500 krónur á móti. Sendingarkostnaður er af augljósum ástæðum innifalinn.
Ritstjórar Ljóðbréfs eru Dagur Hjartarson og Ragnar Helgi Olafsson. Útgáfa Ljóðbréfa verður líklega ekki nánar auglýst síðar því Ljóðbréf eru jafnan send út hljóðalaust, án þess að því fylgi fögnuður eða djúpur harmur. Mælst er til þess að lesendur (þ.e.a.s. kostunarmenn) virði þann þagnarhjúp sem Ljóðbréf dvelja í – vinsamlegast talið ekki um Ljóðbréf við ókunnuga; lesið þau einsömul, bak við luktar dyr, til dæmis inn á baðherbergi – með ljósin slökkt.